Ágengar lífverur í sjó

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. mars 2011.

Framandi lífverur eru þær sem finnast utan náttúrulegra heimkynna vegna viljandi eða óviljandi flutnings af mannavöldum. Lítill hluti framandi lífvera verður ágengur og veldur skaða fyrir aðrar tegundir eða spillir hagsmunum mannsins. Flutningur framandi lífvera milli hafsvæða er mikið áhyggjuefni á heimsvísu því víða hefur orðið tjón á lífríki sjávar vegna ágengra tegunda. Skaðinn hefur verið frá því að vera smávægilegur upp í að kollvarpa heilum vistkerfum. Framandi lífverur hafa líka valdið skemmdum á skipum, veiðarfærum, vatnsleiðslum og eldi fisks og skeldýra. Á lista yfir óæskilegustu lífverurnar sem staðfest hefur verið að flytjist milli landa á þennan hátt eru m.a. skeldýr, krabbadýr, þörungar og bakteríur sem hafa valdið skaða á lífríki í Vestur-Evrópu. Með hækkandi hitastigi sjávar hafa víða skapast skilyrði fyrir framandi tegundir til að koma undir sig fótunum í umhverfi sem þær hefðu annars ekki getað þrifist í.

Á Íslandi hefur fremur lítið verið fjallað um framandi ágengar lífverur í sjó, þrátt fyrir að veruleg efnahagsleg verðmæti felist í lífríki hafsins. Vegna landfræðilegrar einangrunar Íslands og e.t.v. fyrir tilviljun höfum við fram til þessa sloppið vel við skaða af völdum ágengra tegunda í sjó en auknir sjóflutningar milli landa á undanförnum árum og áratugum, auk yfirvofandi loftslagsbreytinga, gætu breytt því.

Helstu flutningsleiðir
Framandi tegundir eru einkum taldar berast á milli hafsvæða eftir þremur leiðum: Kjölfestuvatni skipa, sem ásætur á skipsskrokkum og með tilflutningi sjávareldisdýra. Af þessum flutningsleiðum er kjölfestuvatnið talin mikilvægust. Kjölfestuvatn er einkum notað til að þyngja og styrkja flutningaskip þegar þau eru með lítinn farm. Vatnið er tekið inn í skipið á einum stað en losað í nágrenni við höfn þar sem vörur eru sóttar, oft í öðrum heimshluta. Metið hefur verið að á hverjum degi geti nokkur þúsund tegundir flust á milli staða á þennan hátt og hafa a.m.k. 500 þeirra myndað lífvænlega stofna við strendur Evrópu. Engar upplýsingar eru til um losun kjölfestuvatns við Íslandsstrendur fram til þessa en það á að breytast með nýrri reglugerð um takmarkanir á losun kjölfestuvatns, sem umhverfisráðherra setti um mitt síðasta ár.

Nýjar tegundir við Ísland og áhrif þeirra
Talið er að nokkrar nýjar tegundir við Ísland hafi borist hingað vegna beinna eða óbeinna áhrifa mannsins. Á meðal þeirra eru flundra (ósakoli), sandrækja, grjótkrabbi (klettakrabbi), sandskel, hjartaskel, fitjafló og sagþang. Fremur lítið er enn vitað um möguleg áhrif þessara tegunda á lífríki sjávar við Ísland. Þó er t.d. þekkt að flundra á í samkeppni við laxfiska í ám og étur laxaseiði, sandrækja er öflugur afræningi á skarkolaseiðum og grjótkrabbi er árásargjarn gagnvart öðrum kröbbum. Þekkt er að langur tími getur liðið frá landnámi þar til áhrif framandi tegundar koma fram. Of snemmt er því að draga miklar ályktanir um áhrif þessara tegunda, t.d. hvort þær verði mögulega nytjastofnar framtíðarinnar eða að einhverjar þeirra hafi neikvæð áhrif á íslenskar nytjategundir eða aðrar lífverur. Nauðsynlegt er að efla rannsóknir á þessum framandi lífverum til að hægt verði að fylgjast með og bregðast strax við ef stefnir í óefni.

Varnir
Mjög erfitt er að verjast ágengum lífverum eftir að þær hafa náð fótfestu á nýju svæði og er baráttan enn erfiðari í sjó en á landi. Vistfræðingar hafa áhyggjur af komu ýmissa framandi sjávarlífvera, t.d. þörungaætanna mararhettu og fjörudoppu, en ef þær bærust hingað er talið að þær gætu orðið ágengar og gjörbreytt fjörusamfélögum við Ísland. Mikilvægt er að spá fyrir um mögulegt landnám tegunda byggt á því hvaða tegundir eru í nágrenni helstu viðskiptahafna Íslendinga. Út frá slíkum spám mætti beita markvissum aðferðum til að koma í veg fyrir flutning varasamra tegunda, ekki síst með skipaferðum. Forvarnir eru lang áhrifaríkasta og ódýrasta leiðin til að ná árangri en áðurnefnd reglugerð um kjölfestuvatn miðar einmitt að því.  Þá boða drög að frumvarpi til breytinga á lögum um náttúruvernd aukna varkárni við innflutning og eru því einnig liður í að verja hafsvæði Íslands fyrir ágengum tegundum. Það er von undirritaðra að þeim áherslubreytingum sem orðið hafa eða eru boðaðar í íslensku regluverki verði fylgt eftir. Einnig er brýnt að almenn vitund um framandi lífverur vaxi og að tilkynnt sé um fund nýrra tegunda til viðeigandi stofnana.

Róbert A. Stefánsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Rannveig Magnúsdóttir

Höfundar eru líffræðingar.

Nokkrar heimildir til að setja á heimasíðu Vistfræðifélags Íslands:

Agnar Ingólfsson 2010. Náttúruverndargildi íslensku fjörunnar og aðsteðjandi hættur. Náttúrufræðingurinn 79 (1-4), 19-28.

Anton Galan og Hrafnkell Eiríksson 2009. Tösku-, tann- og klettakrabbi. Náttúrufræðingurinn 77 (3-4), 101-106.

Bax, N., Williamson, A., Aguero, M., Gonzalez, E. & Geeves, W. 2003. Marine invasive alien species: a threat to global biodiversity. Marine Policy 27, 313-323.

Björn Gunnarsson, Þór H. Ásgeirsson and Agnar Ingólfsson 2007. The rapid colonization by Crangon crangon (Linnaeus, 1758) (Eucarida, Caridea, Crangonidae) of Icelandic coastal water. Crustaceana 80 (6): 747-753.

Carlton, J.T. 1996. Pattern, process, and prediction in marine invasion ecology. Biological Conservation 78, 97-106.

Carlton, J.T. & Geller, J.B. 1993. Ecological roulette: the global transport of nonindigenous marine organisms. Science 261, 78-82.

Cheung, W.W.L., Lam, V.W.Y., Sarmiento, J.L., Kearney, K., Watson, R., & Pauly, D. 2009. Projecting global marine biodiversity impacts under climate change scenarios. Fish and Fisheries, 10, 235-251.

Gollasch, S. 2007. Is ballast water a major dispersal mechanism for marine organisms? Bls. 49-57 í Biological Invasions (ritstj. W. Nentwig). Ecological Studies, Vol. 193. Springer-Verlag Berlin Heidelberg.

Gunnar Jónsson, Jónbjörn Pálsson & Magnús Jóhannsson 2001. Ný fiskitegund, flundra, Platichthys flesus (Linnaeus, 1758), veiðist á Íslandsmiðum. Náttúrufræðingurinn 70, 83-89.

Gudmundur Ingi Guðbrandsson og Bjarni Jónsson 2004. Landnám, útbreiðsla og búsvæðaval nýrrar tegundar við Íslandsstrendur, ósalúru Platichthys flesus. Útdráttur í ráðstefnuriti afmælisráðstefnu Líffræðifélags Íslands og Líffræðistofnunar HÍ, Reykjavík 19.-20. nóvember 2004.

Keller, R.P., Drake, J.M., Drew, M.B. & Lodge, D.M. 2011. Linking environmental conditions and ship movements to estimate invasive species transport across the global shipping network. Diversity and Dristributions 17, 93-102.

Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson 2007. Flundra nýr landnemi á Íslandi. Rannsóknir á flundru (Platichthys flesus) í Hlíðarvatni í Selvogi. Fræðaþing landbúnaðarins 4, 466-469.

Óskar Sindri Gíslason 2009. Grjótkrabbi (Cancer irroratus) við Ísland: uppruni og lirfuþroskun með samanburði við bogkrabba (Carcinus maenas) og trjónukrabba (Hyas araneus). Ritgerð til meistaraprófs í líffræði. Háskóli Íslands, Reykjavík. 53 bls.

Reglugerð um losun kjölfestuvatns: http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1663 og http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Reglugerdumkjolfestuvatn.pdf

Þessi færsla var birt undir Greinar. Bókamerkja beinan tengil.