Makríll við Ísland. Líffræði – stofnstærð og göngur

Þorsteinn Sigurðsson, fiskifræðingur, flytur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 29. október kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Ágrip af erindi Þorsteins:

„Á undanförnum tveimur áratugum hafa yfir 30 nýjar tegundir bæst í hóp þeirra fisktegunda sem fundist hafa í lögsögu Íslands og telja má fullvíst að tengist þeirri hlýnun sem orðið hefur í hafinu við Ísland á sama tíma. Fæstar þessara nýju tegunda teljast til nytjastofna og finnast jafnframt aðeins í takmörkuðu magni að undanskildum makríl (Scomer scombrus), sem nú er orðinn mikilvægur nytjastofn á Íslandsmiðum og árlegur afli undanfarin ár verið um 150 þúsund tonn. Í erindinu er m.a. fjallað um líffræði makríls í Norðaustur-Atlantshafi, umhverfisbreytingar sem orðið hafa á Íslandsmiðum á undanförnum árum og um breytingar á útbreiðslu makríls samfara þeim. Þá verður fjallað um rannsóknir Íslendinga á undanförnum árum, m.a. niðurstöður athuganna á því hvað makríllinn étur meðan hann hefur viðkomu við landið. Jafnframt er fjallað um komur makríls á Íslandsmið á síðustu öld og þær settar í samhengi við umhverfisaðstæður sem ríktu við landið á þeim tíma.“

Þorsteinn Sigurðsson er fæddur árið 1964. Hann lauk BS. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1991, 4. árs verkefni frá sama skóla árið 1992 og lauk cand scient prófi í fiskifræði við Háskólann í Bergen árið 1993 með bergmálsmælingar fiskistofna sem sérsvið. Þorsteinn hefur frá árinu 1994 starfað á Hafrannsóknastofnuninni, fyrst sem sérfræðingur en frá árinu 2005 sem forstöðumaður Nytjastofnasviðs stofnunarinnar.

Heyra má viðtal við Þorstein í útvarpsþættinum* Samfélagið í nærmynd á Rás 1 næstkomandi mánudag kl. 11:03.

Sjá nánar á vef HÍN

Þessi færsla var birt undir Fræðsluerindi. Bókamerkja beinan tengil.