Veðurfar og lífríki sjávar á Íslandsmiðum / Climate and the marine ecosystem in Icelandic waters

Hafrannsóknastofnunin stendur fyrir ráðstefnu um „Veðurfar og lífríki sjávar á Íslandsmiðum“  í fyrirlestrasal stofnunarinnar, Skúlagötu 4, 21. – 22. febrúar 2013. Ráðstefnan verður öllum opin.

Veðurfar og breytileiki  hefur  mikil áhrif á ástand sjávar, lífsskilyrði í sjónum og göngur og stærð fiskistofna á Íslandsmiðum.   Hlýviðrisskeið var hér við land á árunum 1925-1945, kuldaskeið frá 1965-1971 og frá árinu 1996 hefur verið hlýviðrisskeið.  Á þessum tímabilum hafa einnig orðið verulegar breytingar á vistkerfi sjávar við Ísland.  Nýlegar breytingar á sjávarhita og seltu hafa haft áhrif á allt vistkerfið frá svifi  til fiska og spendýra.  Sum bein áhrif á veðurfarsbreytinga á lífríki hafsins eru þannig nú þegar merkjanleg en önnur þarf að greina betur með auknum rannsóknum og líkanagerð.

Á ráðstefnunni verður fjallað um áhrif veðurfars á lífríki sjávar á Íslandsmiðum og er hér óskað eftir framlögum (erindum, veggspjöldum) sem falla að efni ráðstefnunnar.  Vinsamlega sendið ágrip á netfangið radstefna@hafro.is fyrir 21. desember 2012.  Rannsóknir verða kynntar í fyrirlestrum og á veggspjöldum.

Í undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnuna eru Björn Ævar Steinarsson, Þorsteinn Sigurðsson, Sigurborg Jóhannsdóttir og Sólveig R. Ólafsdóttir öll hjá Hafrannsóknastofnuninni.

Þessi færsla var birt undir Fræðsluerindi, Ráðstefnur. Bókamerkja beinan tengil.