Sérbindi Náttúrufræðingsins tileinkað minningu Agnars Ingólfssonar

Undirbúningur er hafinn að söfnun greina sem birtar verða í Náttúrufræðingnum á árinu 2014 til þess að minnast dr. Agnars Ingólfssonar prófessors sem lést 10. október 2013, 76 ára að aldri. Útför Agnars fór fram í kyrrþey að eigin ósk. Agnar lauk B.Sc. (Hons)-prófi frá Háskólanum í Aberdeen í Skotlandi árið 1961. Lokaverkefnið fjallaði um íslenska örninn sem þá var í mikilli útrýmingarhættu. Rannsóknin lagði vísindalegan grunn að farsælli starfsemi Fuglaverndarfélagsins. Næst sneri Agnar sér að rannsóknum á máfum hér á landi og varði doktorsritgerð við University of Michigan, Bandaríkjunum, árið 1967. Hann var lektor  í líffræði við Southeastern Massachusetts University 1967-1970. Agnar var dósent í dýrafræði við Háskóla Íslands 1970-1973 og síðan prófessor í vistfræði til 2007. Agnar gekk frá mörgum ritgerðum sem birtust á alþjóðavettvangi og var hvað þekktastur fyrir framlag sitt til útbreiðslusögu lífríkis fjöru á austurströnd N-Ameríku. Hann fékkst við rannsóknir tengdar ráðstöfun strandlengjunnar, til dæmis vegna vegagerðar. Eftir hann liggur sérstakt bindi um fjöruna í safnritinu Zoology of Iceland og nokkur almenn rit um lífið í fjörunni. Agnar Ingólfsson hafði einlægan áhuga á náttúrufræðum og umhverfisvernd. Hann beitti sér fyrir stofnun Líffræðifélags Íslands og var fyrsti formaður þess.

Agnar Ingólfsson var fjölfróður á mörgum sviðum líffræðinnar og rannsóknir hans spönnuðu meðal annars líffræði fugla og krabbadýra, sjávarlíffræði, þróunarfræði og vistfræði. Hann hafði líka áhuga á grasafræði og náði langt í margvíslegri jurtarækt.

Þeir sem vilja rita greinar í þetta bindi Náttúrufræðingsins eru beðnir að koma tölvutæku handriti til ritstjórnar ritstjori [hjá] hin.is eigi síðar en 31. mars 2014. Allar greinar verða ritrýndar af óháðum aðilum. Nánari upplýsingar veita Arnar Pálsson, apalsson [hjá] hi.is, Arnþór Garðarsson, arnthor [hjá] hi.is, og Jörundur Svavarsson, jorundur [hjá] hi.is.

Þessi færsla var birt undir Fréttir. Bókamerkja beinan tengil.